Fræði sjónmenningar

Verkefni 2 í MMF framhald

Þá er ég búin að skila af mér verkefni 2 í Fræði sjónmenningar þar sem ég endaði á að velja „Sólúrið“ í Kjarnaskógi og „Íslandsklukkuna“ við HA sem mín listaverk til að vinna með í fyrsta stóra verkefninu í Fræði sjónmenningar áfanganum. Sólúrið valdi ég vegna tengsla minna við skátana og Íslandsklukkuna vegna tengsla hennar við Háskólann á Akureyri og mín í gegnum HA.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af þessum verkum sem eru af heimasíðunni visitakureyri.is.

Sólúrið í Kjarnaskógi
Íslandsklukkan við Háskólann á Akureyri

Verkefni 2 í MMF

VERKEFNI 2: MYNDGREINING – verkefnalýsing

„Fyrsti hluti verkefnis 2 snýst um hugmyndavinnu og að afla gagna. Líta má á þennan þátt verkefnisins sem námsdagbók þar sem þið skráið hugmyndir, vangaveltur og heimildir.
Verkefnið felur í sér að þið eruð beðin um að velja tvö listaverk og skoða m.t.t. (a) formrænnar greiningar (skyggnst er eftir merkingu verks sem tengist t.d. formi, línu, lit, áferð eða myndbyggingu) og (b) þjóðfélagslegrar greiningar (skyggnst er eftir merkingu verks sem tengist þjóðfélagssamhengi eða pólitísku inntaki). 
Fyrsti hluti verkefnisins snýst um að leita hugmynda með t.d. lestri lesefnis frá kennara (sett inn á moodle-vefinn), skoðun bóka, sýninga eða efnis á netinu í þeim tilgangi að velja listaverk, og í framhaldinu að finna myndir af listaverkunum – myndefni – til að nota við úrvinnslu verkefnisins. Myndefnið getur t.d. verið innskannað efni úr bókum, myndir af vefsíðum eða myndir sem þið hafið sjálf tekið af listaverkum á sýningu eða í heimahúsi. Munið að skrá heimildina (þ.e. hvaðan þið fenguð myndefnið). Verkin mega vera eftir íslenskan eða erlendan listamann og gerð á tímabilinu frá um 1900 til okkar tíma. 
Skrifið í námsdagbók greinargerð þar sem fram koma upplýsingar um listaverkin sem þið hafið valið (heiti listamanns, heiti verks, ártal, efni, stærð verks) og um það myndefni eða aðrar áhugaverðar heimildir sem þið hafið fundið til að nota í verkefnið (um 350-450 orð).“

Strax og ég heyrði af þessu verkefni datt mér í hug að velja amk eitt ef ekki tvö útilistaverk á Akureyri. Annað þeirra er listaverk sem staðsett er í dag við Drottningarbraut og hitt, er enn óákveðið. Eitt af því sem ég er með í huga er listaverk sem er staðsett við Strandgötuna (fjöruna), það gæti verið gaman að taka tvö verk sem snúa út að pollinum og vinna með þau.

Ég veit að það er til upplýsingabæklingur um útilistaverk á Akureyri og því byrjaði ég á að leita á netinu að „Útilistaverk á Akureyri“ og fyrsta niðurstaða í leit á Google var: Útilistaverk. Annað sem kom upp í leitinni var lokaverkefni við Kennaradeild HA.

Eftir að hafa skannað yfir lokaverkefnið sem tengist líka mínu starfi, kom annað verk upp í hugann sem mögulegt „annað verk“ í myndgreiningarverkefninu, þ.e. Sólúrið sem er í Kjarnaskógi og var vígt á Landsmóti skáta 1993 en ég var þátttakandi á því móti. Einnig er Íslandsklukkan sem stendur við HA tengd mínu lífi þar sem ég stundaði nám við HA 2008-2012 og fékk ég heiðursverðlaun Góðvina Háskólans 2011 en þau eru sérsmíðuð gullnæla, hönnuð af Petru Guðmundsdóttur, gullsmið, en nælan er eftirlíking af listaverkinu Íslandsklukkunni.

Þannig að núna þarf ég að taka ákvörðun um hvaða tvö verk verða fyrir valinu af þeim fjölda útilistaverka sem er að finna á Akureyri.

Læt þetta duga núna í kvöld en hef greinilega nóg að hugsa um því það er margt sem kemur upp í hugann.